Samþykkt um sjóðinn

Samþykkt um Bílastæðasjóð Sandgerðisbæjar

Sandgerðisbæ 11. apríl 2013

I. kafli.

Stofnun og hlutverk sjóðsins

1. gr.

Bílastæðasjóður Sandgerðisbæjar er eign Sandgerðisbæjar. Sjóðurinn er B-hlutafyrirtæki. Bæjarstjórn kýs þriggja manna stjórn fyrir sjóðinn. Bæjarstjórn er heimilt að gefa Isavia kost á að tilnefna einn fulltrúa í stjórn sjóðsins.

Verkefni bílastæðasjóðs Sandgerðisbæjar er að eiga og reka stöðumæla við götur bæjarfélagsins og reka sérstök bílastæði eftir því sem tilefni er til. Jafnframt er bæjarfélaginu heimilt að fela sjóðnum byggingu og rekstur bílastæðahúsa og annarra bílskýla fyrir almenning.

Til bílastæðasjóðs skulu renna tekjur af stöðumælum og leigu stöðureita, aukastöðugjöld og önnur gjöld vegna stöðvunarbrota. Til sjóðsins renna ennfremur tekjur af leigu bílastæða jafnt úti sem í sérstökum bílastæðahúsum, sem leigð eru til lengri eða skemmri tíma. Þá fær sjóðurinn tekjur af greiddum bílastæðagjöldum, þegar húsbyggjendur greiða bílastæðagjöld skv. sérstakri samþykkt þar um. Ennfremur getur verið um að ræða framlög úr bæjarsjóði eða lántökur með ábyrgð bæjarsjóðs eða tryggðar veði í mannvirkjum, sem bókfærð eru hjá bílastæðasjóði.

II. kafli.

Um bílastæði

2. gr.

Bílastæði er svæði með reitum til að að leggja bílum. Á bílastæði er óheimilt að leggja bílum annars staðar en á merktum reitum.

3. gr.

Bílastæði í þessum samþykktum geta verið:

a. bílastæði, sem eru gjaldfrjáls í takmarkaðan tíma (klukkustæði),

b. gjaldskyld bílastæði til skammtímastöðu (stöðumælastæði),

c. gjaldskyld bílastæði til langtímastöðu (fastleigustæði),

d. sérstök bílastæði fyrir stóra bíla að nóttu til (rútustæði),

e. bílastæðahús og bílskýli.

4. gr.

Bílastæði eru merkt með 50-100 mm breiðum línum, heilum eða brotnum. Þegar ökutæki er lagt á merkt stæði skal það allt vera innan línanna.

Bílastæði ætluð sérstökum aðilum eru merkt á sama hátt en með hornalínum að auki.

III. kafli.

Stöðumælastæði

5.gr.

Stjórn sjóðsins gerir tillögu til bæjarstjórnar um hvar á götum og opnum svæðum skuli setja upp stöðumæla.

6. gr.

Stöðumælar geta verið ýmist einn fyrir hvert stæði eða einn fyrir ótiltekinn fjölda stæða. Skylt er að greiða fyrir afnot af stöðumælareit fyrir hvers konar vélknúin ökutæki.

7. gr.

Tekjur af stöðumælum renna í bílastæðasjóð. Stjórn bílastæðasjóðs gerir tillögu til bæjarstjórnar um fjárhæð gjalds fyrir stöðu ökutækis á stöðumælareit og hvað ökutæki megi standa þar lengi samfellt og á hvaða tíma gjaldskylda er. Lögreglustjóri getur breytt ákvæðum um gjaldskyldu þegar sérstaklega stendur á.

8. gr.

Ef mælir er þannig gerður að úr honum kemur miði með áletrun um þann tíma, er greitt var í hann eða þau tímamörk, sem greitt hefur verið til, skal ökumaður setja miðann á mælaborð við framrúðu bifreiðarinnar, þannig að áletrun á miðanum sé vel sýnileg utan frá.

9. gr.

Hver, sem leggur ökutæki þannig, að eigi er unnt að nota stöðumælareit fyrir annað ökutæki, skal greiða í stöðumælinn eins og ökutækið stæði á stöðumælareitnum sjálfum.

10. gr.

Á stöðumæli skal vera letrað greinilega, hve hátt stöðumælagjaldið er, til hve langs tíma staða er keypt, á hvaða tímum sé skylt að greiða í mælinn og hvernig mælirinn sé settur í gang.

Ekkert ökutæki má standa á stöðumælareit lengur en þann hámarkstíma, sem letraður er á viðkomandi stöðumæli. Bannað er að setja nokkurn annan hlut í stöðumæli en þá mynt, sem mælirinn er gerður fyrir.

IV. kafli.

Klukkustæði

11. gr.

Stjórn sjóðsins gerir tillögu til bæjarstjórnar um hvað ökutæki megi standa lengi samfellt á klukkustæðum. Lögreglustjóri getur breytt þessu ákvæði þegar sérstaklega stendur á.

12. gr.

Klukkustæði eru bílastæði þar sem heimilt er að leggja ökutækjum án gjalds í tiltekinn tíma, eftir atvikum í 15 mín. - 2 klst., skv. því sem tilgreint er á skiltum við bílastæðin. Ekkert ökutæki má standa á klukkustæði lengur en þann hámarkstíma, sem letraður er á viðkomandi skilti.

13. gr.

Ökumannni ökutækis, sem lagt hefur verið á bílastæði skv. 3. gr. og 11. gr., er skylt að hafa bílastæðaklukku á framrúðu eða á mælaborði við framrúðu ökutækisins, þannig að hún sé vel sýnileg utan frá.

14. gr.

Bílastæðaklukka er spjald úr pappa og/eða plasti, sem sérstaklega er gert til að sýna tímasetningar. Óheimilt er að nota aðrar bílastæðaklukkur á klukkustæðum Sandgerðisbæjar en þær sem viðurkenndar eru af Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar.

15. gr.

Ökumannni ökutækis, sem lagt hefur verið á bílastæðum skv. 11. gr., er skylt að sýna, með vísi á bílastæðaklukku, hvenær ökutækinu var lagt á bílastæðið. Óheimilt er að breyta stillingu vísisins áður en ökutækið yfirgefur bílastæðið.

16. gr.

Bílastæðaklukkur skulu vera til afhendingar á skrifstofu Sandgerðisbæjar og/eða annars staðar eftir því sem henta þykir. Heimilt er að innheimta gjald fyrir bílastæðaklukkur.

V. kafli.

Fastleigustæði

17. gr.

Fastleigustæði eru gjaldskyld bílastæði, þar sem ökutækjum er lagt ótímabundið.

18. gr.

Fyrir fastleigustæði er greitt leigugjald sem ákvarðað er fyrir hvern mánuð. Stjórn sjóðsins gerir tillögu til bæjarstjórnar um fjárhæð leigugjaldsins.. Heimilt er að veita afslátt af leigugjaldinu ef samfelldur leigutími er 12 mánuðir eða lengri.

19. gr.

Gegn greiðslu leigugjalds fyrir fastleigustæði skal afhenda leigutaka sérstakt kort sem setja skal á mælaborð við framrúðu ökutækisins, þannig að það sé vel sýnilegt utan frá, þegar ökutækinu er lagt á stæðið.

VI. kafli.

Rútustæði

20. gr.

Rútustæði nefnast sérstök bílastæði fyrir ökutæki, sem bannað er skv. lögreglusamþykkt að leggja á götum eða almennum bílastæðum bæjarins, á tímabilinu milli frá kl. 22:00 til kl. 07:00, ýmist í landi bæjarfélagsins eða á landspildum, sem sérstaklega eru teknar á leigu í þeim tilgangi.

21. gr.

Bílastæðasjóði er heimilt er að taka leigugjald sem ákvarðar er af bæjarstjórn fyrir rútustæði, ýmist tímaleigugjald eða fast gjald. Notendur skulu þá festa límmiða með áritaðri notkunarheimild á rúðu viðkomandi ökutækis.

Séu bílastæðin notuð í heimildarleysi skal greiða aukastöðugjald, sbr.IX. kafla.

VII. kafli.

Bílastæðahús og bílskýli

22. gr.

Stjórn bílastæðasjóðs getur gert tillögu til bæjarstjórnar um að fela Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar að byggja og reka bílastæðahús og bílskýli enda verði fjármögnun þess tryggð.

Heimilt er að selja hlutdeildarbréf í bílastæðahúsum og bílskýlum, sem byggð eru af Sandgerðisbæ fyrir reikning bílastæðasjóðs. Slíkt hlutdeildarbréf veitir rétt á bílastæði í bílahúsinu skv. nánari skilmálum og er sá réttur framseljanlegur. Rétthafi bílastæðis í bílastæðahúsi á vegum bílastæðasjóðs greiðir rekstrarkostnað vegna þess.

23. gr.

Notendur bílastæðahúsa og bílskýla í eigu bílastæðasjóðs skulu greiða leigu fyrir notkun þeirra skv. gjaldskrá, sem stjórn sjóðsins ákveður, jafnframt ákveður stjórn hvenær þau eru opin.

24. gr.

Heimilt er að semja við eigendur einkabílastæðahúsa og einkabílskýla um að rekstur þeirra verði á vegum bílastæðasjóðs hluta sólarhringsins.

VIII. kafli.

Stöðvunarbrot – skilgreining

25. gr.

Stöðvunarbrot samkvæmt samþykkt þessari eru tvennskonar. Annars vegar brot á reglum um notkun stöðureita skv. 108. gr. f lið sbr. 2. mgr. 83. gr. umferðarlaga og er gjaldtaka vegna þess hér á eftir nefnt aukastöðugjald. Hins vegar brot á reglum 108. gr. umferðarlaga lið a – d og er hér á eftir nefnt stöðubrot og stöðubrotsgjald.

IX. kafli.

Eftirlit með stöðubrotum, aukastöðugjald og stöðubrotagjald

26. gr.

Sérstakir stöðuverðir á vegum Sandgerðisbæjar eða aðili sem bæjarstjórn hefur samið við sjá um eftirlit með stöðu bíla bæði á bílastæðum við stöðumæla og annarsstaðar. Þeir skulu líta eftir því að notendur stöðumæla hafi greitt tilskilin stöðumælagjöld og sömuleiðis þeir sem leggja bílum sínum á bílastæðum þar sem gjaldskylda er. Jafnframt skulu þeir líta eftir því, að bílum og öðrum ökutækjum sé ekki lagt ólöglega samanber 108. grein umferðarlaga nr. 50 frá 1987. Stöðuvörðum er heimilt að leggja gjaldmiða á bíla til innheimtu gjalda vegna stöðubrota og misnotkunar á stöðumælum samanber 108. grein umferðarlaga. Gjöld þessi eru hér nefnd aukastöðugjöld ef um er að ræða vanrækslu á greiðslu fyrir gjaldskylt stæði eða aðra misnotkun á gjaldskyldu stæði en stöðubrotsgjald ef um er að ræða brot á reglum umferðarlaga eða lögreglusamþykktar um stöðu eða lagningu bifreiðar. Á þeim tímum sem stöðuverðir starfa ekki sér lögreglustjórinn á Suðurnesjum um eftirlitið.

27. gr.

Þegar stöðuvörður verður þess var, að ökutæki stendur ólöglega samanber 108. gr. laga nr. 50 frá 1987, skal hann afhenda ökumanni þess eða festa við það, tilkynningu um brotið. Á tilkynningunni skal taka fram hvar og hvenær brot átti sér stað, hvert brot er, auðkenni ökutækis, svo sem skráningarnúmer og tegund (gerð) og greint frá því að ökumanni sé boðið

að ljúka málinu með greiðslu stöðubrotsgjaldsins í Bílastæðasjóð Sandgerðisbæjar, hvar og hvernig greiðslu megi inna af hendi svo og fjárhæð gjaldsins og hvernig með verði farið ef greiðsla dregst. Tilkynning skal undirrituð af stöðuverði (nafn og númer). Á sama hátt skal stöðuvörður tilkynna um aukastöðugjald, hvar og hvernig megi inna greiðslu af hendi og hvernig með verði farið ef greiðsla dregst.

28. gr.

Stjórn bílastæðasjóðs ákveður fjárhæð aukastöðugjalds og stöðubrotsgjalds. Gjöld þessi skal greiða innan 14 daga frá álagningu. Tilkynning um gjald er í formi kröfu. Sé gjald samkvæmt 1. málsgrein ekki greitt innan 14 daga hækkar það gjald um 50%. Kröfubréf skulu send til þeirra sem ekki greiða innan greinds frests.

29. gr.

Verði gjöld samkvæmt 1. málsgrein 10. greinar ekki greidd innan 14 daga er heimilt að beita ákvæðum 109. greinar umferðarlaga nr. 50 frá 1987 við innheimtu þeirra.

X. kafli.

Rekstur bílastæða og gjaldtaka fyrir notkun þeirra.

30. gr.

Sandgerðisbær tekur ákvörðun um gerð almennra bílastæða ýmist á landi bæjarins eða á landspildum, sem sérstaklega eru teknar á leigu í þeim tilgangi. Heimilt er að taka leigugjald fyrir bílastæði ýmist tímaleigugjald eða fast gjald.

31. gr.

Heimilt er að semja við eigendur einkabílastæða um tímabundin afnot þeirra og útleigu til almennings.

32. gr.

Stjórn bílastæðasjóðs gerir tillögu til bæjarstjórnar um fjárhæð gjalds fyrir afnot bílastæða, er fjallað er um í þessum kafla svo og þann tíma sólarhrings, sem notkun er undanþegin leigu. Leigugjöld renna í bílastæðasjóð Sandgerðisbæjar.

33. gr.

Samþykkt þessi tekur gildi þegar í stað.

Samþykkt í bæjarstjórn Sandgerðisbæjar 11. apríl 2013